7. október 2022

Skjót viðbrögð í Borgartúni

Á rúmum sólarhring tókst Leiguþjónustu FSRE að gera nauðsynlegar breytingar á gömlum höfuðstöðvum Vegagerðarinnar, til að opna mætti þar fjöldahjálparstöð. 

FSRE hefur útvegað húsnæði og skapað aðstöðu fyrir flóttafólk frá 18. mars sl. Alls hefur Leiguþjónusta FSRE tekið í notkun 20 ný gistiúrræði fyrir alls 1600 manns frá þeim degi. Frá 9. september hefur straumur flóttafólks aukist mikið. 450 manns hafa notið úrræða á vegum stofnunarinnar frá þeim degi.

FSRE var á þriðjudag falið að útvega húsnæði fyrir fjöldahjálparstöð. Á rúmum sólarhring tókst að útvega húsnæði og gera nauðsynlegar breytingar til að stöðin gæti hafið starfsemi. Því ber meðal annars að þakka rösk viðbrögð samstarfsaðila FSRE.

„Þegar beiðnin kom á þriðjudaginn varð strax ljóst að hafa þyrfti hraðar hendur. Okkar verkefni var að finna rúmgott og vel staðsett húsnæði og útbúa þar skammtímaaðstöðu fyrir flóttafólk. Líklega þyrfti að taka aðstöðuna í notkun fyrir vikulok. Venjulega tekur vikur eða mánuði að breyta aðstöðu, en hér vann tíminn ekki með okkur. Allt þurfti að ganga upp til að markmiðið næðist.“ Segir Kristján Sveinlaugsson hjá Leiguþjónustu FSRE.

Kristján Sveinlaugsson. 

Fyrsta flóttafólkið nýtti sér aðstöðu fjöldahjálparstöðvarinnar í Borgartúni í gær, fimmtudag. Í lok dags höfðu 40 manns komið í miðstöðina. Viðunandi gistiaðstaða var til reiðu fyrir öll og þurfti enginn að dvelja í miðstöðinni í nótt.

Fjöldahjálparstöðin er í fyrrum höfuðstöðvum Vegagerðarinnar, sem nýverið flutti úr húsinu. Byggingin er rúmgóð skrifstofubygging á fimm hæðum. Stór hluti húsnæðisins eru læsanlegar einkaskrifstofur. Skapist það ástand, geta þær hentað sem athvarf í nokkra daga. Gera þurfti nokkrar mikilvægar breytingar til að húsnæðið hentaði til dvalar barna og fullorðinna.

„Við höfðum strax samband við aðila sem við vissum að gætu brugðist skjótt við. Dagar höfðu þrifið húsið strax sama dag. Verkfræðistofan Lota gekk strax í að stýra hönnun og aðgerðum vegna brunavarna. Aðgangsstýringar eru mikilvægar og fengum við Öryggismiðstöðina til að koma þeim málum í lag. Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur einnig verið afar liðlegt í tengslum við þetta verkefni. Í samliggjandi byggingu eru nokkrar ríkisstofnanir sem taka þarf tillit til. Þá þarf að gæta að öryggi fólksins sem nýta mun aðstöðuna. Þráðlaust net er mikilvæg grunnþörf fólks sem hefur verið aðskilið frá ástvinum. Rauði krossinn og Vinnumálastofnun gengu rösklega í að setja upp vefbeina um allt hús. Múlakaffi, sem rekur mötuneyti starfsfólks ríkisins í Borgartúni 7, brást hratt við og mun opna mötuneytið á kvöldin fyrir flóttafólki. Rauði krossinn sér um daglegan rekstur og svefnaðstöðu, en við sköpum umgjörðina. Húsnæðið var tekið út af eftirlitsaðilum á miðvikudag. Engar athugasemdir voru gerðar.“

Á sama tíma leitar Leiguþjónusta FSRE að húsnæði til lengri tíma fyrir fólk á flótta. Þau sem telja sig geta lagt til húsnæði geta skráð eign sína hér


Fréttalisti