Vistkerfi - Öryggi - Réttindi

Leiðsagnarverkefni FSRE í samfélagsábyrgð

Sumarið 2019 hófst vinna innan FSRE að VÖR - Vistkerfi Öryggi Réttindi - leiðsagnarverkefni í samfélagsábyrgð. Markmið verkefnisins er að lágmarka neikvæð samfélagsleg áhrif af byggingaframkvæmdum og setja fordæmi fyrir byggingariðnaðinn.

Sumarið 2019 ákvað FSRE að setja á stofn leiðsagnarverkefni sem tæki á helstu þáttum neikvæðra samfélagsáhrifa vegna byggingaframkvæmda. Verkefnið fékk nafnið VÖR - Vistkerfi Öryggi Réttindi. Verkefninu var hleypt af stokkunum í einu stærsta verkefninu sem FSRE kemur að þessi misserin - Húsi íslenskunnar. Byggingaframkvæmdir hófust í ágúst 2019 og hafði undirbúningur verkefnisins þá staðið í nokkurn tíma.

VÖR verkefninu er ætlað að lágmarka neikvæð áhrif byggingaframkvæmda á sviði umhverfis-, öryggis- og réttindamála.

FSRE leitaði samstarfs við ÍSTAK, aðalverktaka við Hús íslenskunnar til að þróa aðferðarfræðina, en auk verktakans koma Vinnueftirlit ríkisins, Rauði krossinn, ASÍ og BREEAM stofnunin í Bretlandi að verkefninu með einum og öðrum hætti

Vistkerfismál

Markmið með aðgerðum er að lágmarka umhverfisáhrif af framkvæmdum og rekstri byggingarinnar.
Aðgerðir byggja á því að sækjast eftir BREEAM vottun á hönnun og framkvæmd bygginarinnar.
Mælikvarðar sem notaðir eru til að meta árangur felast í mælingu á sjálfbærnibreytum, til dæims orkunotkun, úrgangi, landnotkun og ferðamátum sem í boði eru til og frá byggingunni.

Öryggismál

Markmið með aðgerðum er að engin alvarleg slys verði á verkstaðnum og að starfsfólk njóti góðrar líkamlegrar og andlegrar heilsu á verktímanum.

Aðgerðir eru margþættar:

 • Vinnusvæðið er lokað - eingöngu þau sem eiga erindi komast inn á svæðið.
 • Öryggisbúnaður og öryggiskynning er skydla fyrir alla sem fara inn á svæðið
 • Skyndihjálparnámkskeið er skylda fyrir allt starfsfólk
 • Trúnaðarlæknir og andleg skyndihjálp er í boði fyrir allt starfsfólk
 • Öryggismenning er byggð upp á verkstaðnum, meðal annars með að hafa öryggismál fyrst á dagskrá allra verkfunda auk þess sem öryggisfulltrúi í fullu starfi er á verkstað

Mælikvarðar í öryggismálum eru:

 • Fjöldi alvarlegra slysa (0 fyrsta árið)
 • Fjöldi veikindadaga samanborið við svipuð verkefni
 • Mæling á heilsufari framkvæmd af trúnaðarlæknum

Réttindamál

Markmið eru að vinnuaðstæður séu til fyrirmyndar og að öll réttindi starfsmanna séu virt að fullu
Aðgerðir felast í:

 • Stafræn innskráning á verkstað tryggir miðlæga þekkingu á réttindum starfsmanna
 • Virkt eftirlit verkalýðsfélaga á verkstað
 • Keðjuábyrgð

Mælikvarðar á árangur felast í fjölda mála sem upp koma og varða réttindi starfsmanna og starfsmannaveltu.