25. apríl 2022

Samningur um lóð fyrir húsnæði viðbragðsaðila undirritaður

Ríki og borg hafa undirritað samning um lóð fyrir nýja björgunarmiðstöð, sem áætlað er að verði um 26 þúsund fermetrar. Lóðin liggur á milli Kleppsspítala og Holtagarða.

Í dag undirrituðu þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra,  Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis og Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri FSRE samning um lóð fyrir Björgunarmiðstöð. 

Í Björgunarmiðstöð verður sameiginleg aðstaða fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörgu og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að þörf sameiginlegs húsnæðis fyrir starfsemina sé um 26 þúsund fermetrar en lóðin sem er á milli Kleppssvæðis og Holtagarða er um 30.000 m2. 

Björgunarmiðstöðin hefur gengið undir nafninu húsnæði viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, en vinna að verkefninu hefur staðið yfir frá árinu 2019. FSRE hefur stýrt verkefninu frá upphafi. Undirritunin í dag er mikilvægur áfangi í verkefninu. 

Lóðin liggur á milli Kleppsspítala og Holtagarða. 


Fréttalisti