• FSRE

9. nóvember 2021

Nýtt skipurit Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna kynnt

Nýtt skipurit Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna hefur verið kynnt starfsfólki stofnananna. Undirbúningur fyrir innleiðingu þess er í fullum gangi og stefnt að gildistöku þess á þessu ári. Tvö framkvæmdastjórastörf hjá stofnuninni verða auglýst í dagblöðum um helgina. Hægt er að skoða auglýsingar um störfin hér og hér .

Nýtt skipurit Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna hefur verið kynnt starfsfólki stofnananna. Undirbúningur fyrir innleiðingu þess er í fullum gangi og stefnt að gildistöku þess á þessu ári. Tvö framkvæmdastjórastörf hjá stofnuninni verða auglýst í dagblöðum um helgina. Hægt er að skoða auglýsingar um störfin hér og hér .

Í nýju skipuriti verða til þrjú ný kjarnasvið:

  • Leiguþjónusta verður tenging við notendur húsnæðis og jarða í eigu ríkisins. Leitað er að framkvæmdastjóra til að veita því sviði forstöðu. 
  • Eigna- og aðstöðustýring mun fara með stefnumörkun og gerð langtímaáætlana um fjárfestingar. Leitað er að framkvæmdastjóra til að veita því sviði forstöðu. 
  • Þróun og framkvæmdir munu fara með umsjón fjárfestingarverkefna á þróunar- og framkvæmdastigi. Þröstur Söring verður framkvæmdastjóri sviðsins. 

Þá verður til stoðsvið fjármála og stafrænna innviða, sem Sólrún Jóna Böðvarsdóttir mun stýra. Þá mun skrifstofa forstjóra starfa áfram. Forstjóri FSRE er Guðrún Ingvarsdóttir.

Sameining FSR og Ríkiseigna á sér talsverðan aðdraganda. FSR hefur starfað frá árinu 1998 sem faglegur og miðlægur aðili á sviði framkvæmda og húsnæðisöflunar ríkisins. Vinnur stofnunin nú að um 130 þróunarverkefnum, sem öll miða að því að útbúa aðstöðu fyrir þjónustu ríkisins.

Ríkiseignir urðu til árið 2015. Stofnunin heldur utan um fasteignir og jarðir í eigu ríkisins, alls 530 þúsund fermetra í 380 eignum og 300 jarðir.

Lengi hefur verið ljóst að talsverð samlegð væri til staðar á milli stofnananna tveggja. Með auknu umfangi þeirra hin síðari ár og aukinni áherslu á bætta yfirsýn í ríkisfjármálum hefur hvatinn til sameiningar þeirra aukist. Til tíðinda dró árið 2019 þegar forstöðumenn stofnananna höfðu frumkvæði að vinnustofum með fjármálaráðuneyti þar sem staðan og sóknarfæri voru greind. Stofnanirnar voru bornar saman við systurstofnanir sínar á Norðurlöndum með gagnreyndri aðferðafræði. Niðurstaðan var skýr, að í fasteigna- og aðstöðurekstri ríkisins leyndust tækifæri sem önnur nágrannalönd höfðu gripið, en ekki Íslendingar.

Dæmi voru um að allt að sex aðilar kæmu að tilteknum þáttum málaflokksins, allir á vegum ríkisins. Augljóst væri að sóknarfæri væri í nánari samvinnu aðila sem koma að aðstöðusköpun og utanumhaldi eigna.

Nýtt skipurit FSRE markast meðal annars þessari vinnu og ítarlegri greiningu sem unnin hefur verið á undanförnum misserum. Að þeirri vinnu komu stjórnendur og starfsfólk stofnananna í samstarfi við fulltrúa fjármálaráðuneytis. Með því er skapaður heildstæður rammi um fasteigna og framkvæmdamál ríkisins sem ætlað er að stuðla að aukinni yfirsýn og bættri nýtingu eigna og auknu virði fyrir notendur aðstöðu

„Sameinaðri stofnun er falið stærsta eignasafn landsins sem hefur snertifleti við flest svið mannlífsins", segir Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri FSRE. „Eignirnar sem við rekum tengjast m.a. heilbrigðis- og velferðarmálum, menningu, menntun, löggæslu, dómskerfi, náttúru og friðlýstum svæðum og innan safnsins er að finna nokkrar af helstu perlum íslenskrar byggingarlistar. Í eignasafninu eru falin gríðarleg verðmæti, hvort sem litið er til fjárbindingar, menningar- og náttúruverðmæta eða áhrifa á hjól íslensks samfélags. Þetta fjöregg er eign almennings og í því felast mikil verðmæti en jafnframt gríðarleg tækifæri á tímum þegar stafræn þróun, breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og lofstlagsáskoranir berja að dyrum.

Það er staðreynd að umhverfisvænasti fermeterinn er sá sem þegar er byggður og við vitum að víða leynast tækifæri til að nýta innviði ríkisins með markvissari hætti, hvort sem horft er til fjármuna, umhverfismála eða virkni samfélagsins. Þá er stafræn þróun að valda straumhvörfum í þjónustuferlum ríkisaðila og mikilvægt er að fasteignasafn ríkisins aðlagist þeim. Með því að hafa framkvæmdir, rekstur og endurbætur aðstöðu ríkisins undir einum hatti skapast tækifæri til að nýta verðmætin okkar betur, mæta betur þörfum notenda aðstöðunnar og létta á daglegu fasteignaumstangi ríkisaðila með heildstæðari þjónustu."

Nánar um nýju sviðin

Eignastýringarráð

Skipað af fulltrúum FJR.

Markmið ráðsins verður að tryggja fyrir hönd fjármálaráðuneytis að stefna um stýringu fasteigna ríkisins og tengdra réttinda sé skýr á hverjum tíma. Auk þess fylgist ráðið með því að starfsemi stofnunarinnar sé til þess fallin að ná árangri í samræmi við stefnu.

Leiguþjónusta

Leiguþjónusta er tekju- og þjónustusvið. Hlutverk sviðsins er að reka viðeigandi aðstöðu fyrir ríkisaðila með hagkvæmni og gæði að leiðarljósi.

Markmið sviðsins er að tryggja vandaða aðstöðu fyrir ýmsa þjónustu ríkisins á sama tíma og sviðið tryggir samlegð og samnýtingu húsnæðis til að lágmarka aðstöðukostnað ríkisins.

Eigna- og aðstöðustýring

Er fjárfestingasvið sem stýrir eignasafni og rekstri þess. Ber ábyrgð á viðhaldi og arðsemi safnsins.

Markmið sviðsins er að hámarka nýtingu á fasteignum í eigu ríkisins og lækka heildarkostnað á hvern nýttan fermetra. Sviðið mun losa um fjárbindingu í eignum sem ekki nýtast í rekstri ríkisins og hafa ekki verndargildi. Stefnt er að því að bæta gæði eignasafnsins.

Þróun og framkvæmdir

Er kostnaðareining og stoðsvið, en eitt af kjarnaþjónustusviðum FSRE.

Markmið sviðsins er að lágmarka stofnkostnað með hliðsjón af þörfum og væntingum leigutaka og ríkissjóðs. Sviðið þróar hagkvæma og vandaða aðstöðu fyrir ríkisaðila í þjónustu almennings. 

 


Fréttalisti