15. september 2022

Lokað útboð á framkvæmdum við Litla Hraun auglýst

Ríkiskaup birti um helgina auglýsingu í dagblöðum fyrir hönd FSRE. Í auglýsingunni er óskað eftir umsóknum verktaka um þátttöku í lokuðu útboði um breytingar og endurbætur á Litla-Hrauni.

Undanfarnar vikur hafa fjórir hönnunarhópar spreytt sig á því að skissa upp fyrirhugaðar breytingar. Hóparnir hafa átt í víðtæku samráði við hagsmunaaðila; lögreglu, geðheilbrigðisstarfsfólk, fanga og fangaverði.

Fljótlega verður einn hópurinn valinn til að útfæra þær breytingar sem gera þarf til að aðstaða Litla Hrauns verði nútímaleg og betur fallin til að gæta að heilsu og betrun fanga.

Nú er leitað að verktökum með verkfræðiteymi sem treysta sér til að framkvæma þær breytingar sem fyrirhugaðar eru.

Helstu stærðir verkefnisins eru 1.300 fermetra nýbyggingar, 2.000 fermetra endurgerð á gömlu húsnæði og lagfæringar á lóð og umhverfi með uppskiptingu svæða.

Forvalið er opið öllum hæfum umsækjendum og er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 (OIL).

Nánari upplýsingar má finna á www.utbodsvefur.is .  



Fréttalisti