• Ithaka
  • Ithaka

9. nóvember 2021

Íþaka menntaskólans í Reykjavík

Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir eru stolt af viðurkenningu sem Reykjavíkurborg veitti 4. nóvember sl. fyrir vandaðar endurbætur á eldra húsi. 

Reykjavíkurborg veitti endurbótum FSRE á Íþöku viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á eldra húsi.

Íþaka var reist sem bókhlaða Menntaskólans í Reykjavík árið 1867 og er það hlaðið steinhús úr höggnum grástein. Danski byggingarmeistarinn C Klentz sá um byggingu og líklega hönnun þess. Upphaflega voru útveggir kalkaðir og þak skífulagt. Bogadregnir pottjárnsgluggar prýddu allar hliðar hússins. Upphaflega var inngangur í húsið frá Bókhlöðustíg en gatan dregur nafn sitt af húsinu. 
Íþaka er partur af elstu og heillegustu götumynd Reykjavíkur en götumyndin (frá Stjórnarráðshúsinu sem stendur nyrst og Íþöku sem stendur syðst) einkennist af húsum sem byggð voru á 18. og 19. öld og eru nú friðlýst. 

Nýlegar endurbætur á Íþöku sem gerðar voru eftir teikningum Argos arkitekta miðuðust að því að færa húsið sem næst upprunalegu útliti. Sem dæmi um breytingar utanhúss var bárujárn fjarlægt af þaki og það skífulagt í upprunalegum stíl. Gert var að upprunalegum pottjárnsgluggum og þeir endurglerjaðir. Þá var útidyrahurð aftur komið fyrir á upprunalegum stað á suðurgafli hússins. Annar frágangur endurbóta miðaðist við upphaflega gerð hússins og þykir til fyrirmyndar. Endurbætur: Argos.


Fréttalisti