19. janúar 2024

Íbúðir og sérbýli vantar á Leigutorg fyrir Grindavík

Leigutorg fyrir Grindavík var opnað 8. desember síðastliðinn. Alls hafa 356 eignir verið skráðar á torgið, 151 leigð til Grindvíkinga og nú eru 190 eignir í boði. Þó vantar fleiri eignir.

Leigutorg fyrir íbúa Grindavíkur hefur verið starfrækt á Ísland.is frá 8. desember sl. Á torginu hafa verið gerðir yfir 150 leigusamningar. Frá upphafi hafa 356 eignir verið skráðar á torgið, 150 leigusamningar gerðir og nú eru 190 eignir í boði. Flestar eignirnar eru á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmaður FSRE er nú staðsettur í miðstöðinni í Tollhúsinu og aðstoðar við gerð leigusamninga.

Í kjölfar atburða undanfarinnar viku hefur skapast aukin eftirspurn eftir fasteignum til leigu í lengri tíma. FSRE hvetur því fasteignaeigendur sem til að skrá eignir sínar á torgið.

Tekið er við skráningum á leigueignum á Ísland.is.

Samningar sem gerðir eru á vettvangi torgsins eru á milli leigusala og leigjenda. Ríkið veitir íbúum Grindavíkur sérstakan húsaleigustyrk í samræmi við lög þar um.

Torgið er aðeins opið þeim sem voru með skráð lögheimili í Grindavík 10. nóvember. Leigjendur komast inn á torgið á Ísland.is/Grindavik. Rafræn skilríki þarf til að komast inn á torgið.


Fréttalisti