31. maí 2023

Húsnæði vantar fyrir píparanema og gömul skjöl

Nemar í pípulögnum við Borgarholtsskóla og starfsfólk Þjóðskjalasafns bíða spennt eftir niðurstöðum úr markaðskönnunum sem nú standa yfir. Leitað er húsnæði til að hýsa þessa ólíku starfsemi.

FSRE auglýsir nú eftir tilboðum í leiguhúsnæði fyrir annars vegar geymslur fyrir Þjóðskjalasafn og hinsvegar starfsemi pípulagnadeildar Borgarholtsskóla. 

Þjóðskjalasafn bráðvantar varðveisluhúsnæði fyrir skjalasöfn sín. Miðað er við að húsnæðið sé á bilinu 1000-5000 fermetrar og verði tekið á leigu í 5 til 10 ár með möguleika á framlengingu. Gerð er krafa um staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðið skal afhendast fullbúið og tilbúið til notkunar sem fyrst en eigi síðar en 8 mánuðum frá undirritun leigusamnings.

Vegna framtíðaráforma er einnig óskað eftir upplýsingum um 3.000-10.000m2 í þéttbýliskjörnum á landinu sem uppfylla sömu skilyrði.

Ekki er æskilegt að byggingin sé staðsett á áhættusvæði vegna náttúruváar, s.s. jarðskjálfta-, flóða- og sprungusvæði.

Pípulagnanemarnir við Borgarholtsskóla þurfa hinsvegar eingöngu um 500 fermetra til að læra iðngrein sína.  Gerð er krafa um staðsetningu húsnæðis innan Grafarvogs og að það verði helst í göngufæri við aðalbyggingu skólans. Miðað er við að húsnæðið verði tekið á leigu í 5 ár með möguleika á framlengingu í 2–3 ár í viðbót.

Húsnæðið skal afhendast fullbúið og tilbúið til notkunar í síðasta lagi 15. ágúst 2023.

Þau sem hafa yfir að ráða húsnæði sem uppfyllir þessar kröfur og fleiri sem koma fram í útboðsskilmálum eru hvött til að kynna sér málið hér:

Þjóðskjalasafn - Markaðskönnun

Pípulagnadeild Borgarholtsskóla - Markaðskönnun



Fréttalisti