23. ágúst 2021

Hjúkrunarheimili á Húsavík - Jarðvinna boðin út

Jarðvinna vegna byggingar 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík er nú í útboðsferli. Ætlunin er að heimilið opni árið 2024

Ríkiskaup fyrir hönd FSR hefur auglýst útboð jarðvinnu vegna byggingar sextíu rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík. Heimilið verður staðsett við Sjúkrahús HSN á Húsavík, við götuna Auðbrekku. Frá heimilinu verður glæsilegt útsýni út á Skjálfanda.

Jarðvinnan er býsna umfangsmikil, þannig þarf meðal annars að grafa upp 23.000 rúmmetra jarðvegs. 

Helstu magntölur í verkinu eru:

  • Girðing – 370 m
  • Gröftur – 23.000 m3
  • Losun bergs – 200 m3
  • Fyllingar – 910 m3
  • Drenlagnir – 210 m

Haldin var hönnunarsamkeppni vorið 2020, en metþátttaaka var í samkeppninni - alls bárust 32 tillögur. Fyrstu verðlaun í samkeppninni fékk tillaga Arkís og Mannvits. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars:

„Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“



Nú er verkefnið komið á framkvæmdastig, fyrsta skrefið sem fyrr segir útboð á jarðvinnu vegna byggingarinnar. Búast má við að útboð vegna byggingar fari fram snemma árs 2022 og að framkvæmdir við byggingu húsanna hefjist á vordögum. Samkvæmt áætlunum FSR verður heimilið tilbúið fyrir vistmenn sína árið 2024.

Meira um hjúkrunarheimilið hér



Fréttalisti