26. ágúst 2022

Gamla hæstaréttarhúsinu verði breytt í funda- og móttökuaðstöðu

Undanfarið hefur verið til skoðunar að bygging Hæstaréttar við Lindargötu verði breytt í funda og mótttökuaðstöðu, sem tengjast muni Arnarhvoli. 

Hús Hæstaréttar við Lindargötu var teiknað árið 1945 af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Byggingin er 868 fermetrar að stærð á fjórum hæðum og er sambyggð Arnarhvoli, sem er verk sama höfundar. Byggingin nýtur hverfisverndar samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkurborgar. Dómhúsið er talið vera mikilvægt kennileiti sem blasir við frá Hverfisgötu milli Safnahúss og Þjóðleikhúss. Dómhúsið var á sínum tíma hannað til að hýsa og vera tákn fyrir eina helstu stofnun íslensks samfélags.

Húsið er ekki formlega friðað en Minjastofnun hefur lagt áherslu á að framhlið hússins verði varðveitt í óbreyttri mynd. Ekki hefur verið lögð til nein verndun á innra skipulagi eða innviðum hússins en þó þarf að huga að því að virða yfirbrag eignarinnar og efnisval.

Gagngerar endurbætur hafa verið gerðar á Arnarhvoli og hefur Hæstaréttarhúsið notið góðs af því. Búið er að endurnýja þak og glugga ásamt því að farið hefur verið yfir allan múr og húsið steinað að nýju. Var það gert samhliða framkvæmdum við Arnarhvol árið 2014. Gamli Hæstiréttur er að mestu óbreyttur að innan frá því sem var árið 1998, er Hæstiréttur flutti í nýbyggingu sína.

Dómhúsið hefur verið í takmarkaðri notkun um árabil. Árið 2005 var heimilað að Þjóðleikhúsið fengi til bráðabirgða afnot af 2. hæð hússins til æfinga í því ástandi sem það var.

Nauðsynlegt er að ráðast í töluverðar endurbætur á húsnæðinu að innan til að það uppfylli nútímakröfur. Eru flóttaleiðir og aðgengismál með öllu ófullnægjandi. Talið er að opna þurfi milli Arnarhvols og gamla Hæstaréttar af hagkvæmni jafnt sem öryggisástæðum til að uppfylla skilyrði um fjölda flóttaleiða. Af þeim sökum er mikilvægt að sú starfsemi sem komið verður fyrir í húsnæðinu til framtíðar samræmist þeirri starfsemi sem nú þegar er í Arnarhvoli.

Með breytingum á innra skipulagi væri hægt að nýta eignina undir fjölnota fundaraðstöðu, mögulega sem mótttökurými fyrir opinbera gesti ásamt biðrými fyrir fjölmiðla, minni ráðstefnur eða viðburði og aðra fundi. Í hönnun er lögð er áhersla á gæði og einfaldleika og borin virðing fyrir sérkennum hússins. Arkitektar breytinga eru Argos ehf., Arkitektastofa Grétars og Stefáns. Kostnaðargreining arkitekta gerir ráð fyrir að hönnun og framkvæmdir á húsinu muni kosta rúmlega 400 milljónir króna.


Fréttalisti