13. október 2022

Fyrstu íbúarnir flytja inn í Móberg

Tólf íbúar flytja í dag inn í nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili í Árborg

Hið nýja hjúkrunarheimili í Árborg, Móberg, verður tekið í notkun í dag. Tólf íbúar flytja inn á heimilið og verður ein deild tekin í notkun. Alls eru deildirnar fimm og íbúar verða 60.

Langur aðdragandi er að opnun heimilisins.

Í desember 2016 var starfshópur skipaður með fulltrúum velferðarráðuneytisins, Sveitarfélaginu Árborg og Framkvæmdasýslu ríkisins. Í byrjun janúar 2017 var tekin ákvörðun um að fara hina hefðbundnu leið við val á ráðgjafa. Hefja ferlið með hönnunarsamkeppni og gera síðan ráð fyrir að samið yrði við vinningshafann um að ljúka við hönnunina með samstarfaðilum frá öðrum verkfræðistofum.

Í maí 2017 var hönnunarsamkeppnin um nýbyggingu hjúkrunarheimilis í Sveitarfélaginu Árborg auglýst, nánar tiltekið á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi. Skilafrestur tillagna var til 5. september 2017. Alls bárust 17 tillögur frá íslenskum og erlendum arkitektastofum. Niðurstöður dómnefndar voru kynntar og verðlaun afhent þriðjudaginn 24. október 2017. Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps hlutu 1. verðlaun. Samhliða verðlaunaafhendingu var gengið frá samningi milli ráðuneytis og sveitarfélagsins um að fjölga hjúkrunarrýmum um 10, úr 50 í 60.

Í desember 2017 var samþykkt útfærsla á stækkun heimilisins með því að stækka grunnflöt hússins. Áfram var miðað við hringlaga hús á tveimur hæðum. Útboð vegna vegna framkvæmdanna fór fram haustið 2019 og reyndist tilboð Eyktar lægst. Gengið var til samninga við Eykt og hófust framkvæmdir með fyrstu skóflustungu heilbrigðisráðherra og bæjarstjóra Árborgar 22. nóvember 2019. 

Framkvæmdum af hálfu FSRE er nú lokið og heimilið komið í hendur rekstraraðila. FSRE óskar íbúum Árborgar til hamingju með hið glæsilega hjúkrunarheimili.

Frá framkvæmdum við hjúkrunarheimilið.Fréttalisti