• Lífsferilsgreiningar
    FSRE skilar fyrstu lífsferilsgreiningunni í gagnagátt HMS

22. apríl 2024

FSRE skilar fyrstu lífsferilsgreiningunni í gagnagátt HMS

Lífsferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment) fyrir ný mannvirki verða að kröfu í byggingareglugerð frá 1. september 2025. Aðlögunartímabil fyrir innleiðinguna er þegar hafið.

 FSRE er leiðandi í innleiðingu á vistvænum áherslum í byggingariðnaði

FSRE hefur verið brautryðjandi við innleiðingu vistvænnar mannvirkjagerðar á Íslandi og hefur meðal annars notast við umhverfisvottunarkerfin BREEAM og Svanvottun í sínum verkefnum. Markmið með vottun er að auka gæði bygginga og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af mannvirkjagerð yfir líftíma bygginga með því að stuðla að umhverfisvænni hönnun og heilsusamlegra umhverfi. FSRE hefur gert kröfu um lífsferilsgreiningu í flestum stærri nýframkvæmdarverkefnum frá árinu 2018.

Lífsferilsgreiningu fyrir hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði skilað í gátt HMS

Við opnun gagnagáttar fyrir LCA greiningar skilaði FSRE inn greiningu sem unnin var fyrir stækkun hjúkrunarheimilisins Eyri á Ísafirði en húsnæðið verður Svansvottað. Um er að ræða 690 m2 byggingu og fjölgun um tíu hjúkrunarrými. Arkitektar hússins eru VA arkitektar, VSÓ ráðgjöf er ráðgjafi vegna Svansvottunar sem vann einnig lífsferilsgreininguna fyrir FSRE.

Greiningin var unnin við upphaf hönnunar og sýnir hvar umhverfisáhrifin munu liggja. Lagðir eru fram möguleikar til að draga frekar úr kolefnisspori. Með slíkum greiningum valkosta fást forsendur til að velja til dæmis byggingarefni sem hafa minnst umhverfisáhrif.

Eyri_vidbygging_fugla_WM

Hvernig nýtast lífsferilsgreiningar FSRE til að draga úr kolefnisspori?

Reglugerðabreytingin mun ná til flestra nýframkvæmda á vegum FSRE. FSRE hyggst nýta sér aðlögunartímabilið og gera kröfu um LCA greiningar í fleiri verkefnum og nota þær að draga úr umhverfisáhrifum verkefna stofnunarinnar í takt við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum.


Fréttalisti