16. ágúst 2021

Fornleifagröftur við norðanverðan Seyðisfjörð varpar ljósi á skriðuföll liðinna alda

Í aðdraganda framkvæmda við varnargarða í norðanverðum Seyðisfirði hefur staðið yfir viðamikil rannsókn á fornleifum á svæði sem fer undir garðana. Uppgötvanir fornleifafræðinga varpa ljósi á þúsund ára búsetu undir fjallinu Bjólfi, sem ekki hefur alltaf verið sældin ein. Framkvæmdir við garðana hefjast nú síðsumars.

Í sumar og fyrra haust hafa farið fram á vegum FSR og Múlaþings viðamiklar fornleifarannsóknir í landi Fjarðar í Seyðisfirði.

Fyrirhuguð bygging þriggja varnargarða á svæðinu var kveikjan að rannsókninni, en frá 1998 hefur legið fyrir að á svæðinu væru mannvistarleifar frá landnámsöld.

Fornleifafræðingar og annað starfsfólk fyrirtækisins Antikva ehf. hafa haft veg og vanda af uppgreftinum þessi tvö sumur undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings.

Markmið fornleifarannsóknarinnar í Firði er að kortleggja og grafa upp minjar á svæðinu við norðanverðan Seyðisfjörð, fyrir byggingu varnargarða gegn snjóflóðum en margar minjar munu fara undir mannvirkin. Fornleifarannsóknin hefur þó ekki síst leitt í ljós hve mikilvægt er að ráðist verði í gerð slíkra varnargarða enda beinist hún meðal annars að mannvirkjum á svæðinu sem urðu undir snjóflóðinu árið 1885 og skriðuföllum sem fallið hafa yfir fjörðinn í aldanna rás.

Bæjarstæðið í Firði.

Grafið hefur verið upp bæjarstæði á snjóflóðasvæðinu þar sem eru nokkur byggingarskeið, bæði frá því fyrir og eftir hörmungarnar, og mylla frá tímabilinu 1800-1870, þegar Íslendingar fóru að flytja inn korn og mala það sjálfir. Rannsókn fer líka fram á bæjarhólnum Firði þar sem talið er að landnámsmaðurinn Bjólfur hafi byggt og hefur þar verið samfelld búseta frá því á 10. öld fram á þá tuttugustu. Komið hefur í ljós að bæjarhóllinn er miklu umfangsmeiri en áður var talið en bæjarstæðið hefur verið flutt til eftir að skriða féll á það á miðöldum. Á svæðinu sem fer undir varnarmannvirkin er auk þess mikið af búskaparminjum, tóftir útihúsa og garðlög, auk herminja því bæði Bretar og Bandaríkjamenn nýttu svæðið til mannvirkjagerðar á tímum hersetunnar.

Þrívíddarmynd af vatnsmyllu sem grafin hefur verið upp.

Fornleifagröfturinn á sína eigin síðu á Facebook, sem finna má hér .

Þá hafa verið gerðar vandaðar þrívíddarmyndir af uppgreftrinum sem áhugasamir geta skoðað hér .

Teikning af fyrirhuguðum varnargörðum, frá vinstri Bakkagarður, þvergarðurinn Fjarðargarður og lengst til hægri Öldugarður.

Vinna við varnargarðana við norðanverðan Seyðisfjörð var boðin út nú í sumar og bauð Héraðsverk best, tæpa tvo milljarða króna í þetta tröllaukna verkefni, en kostnaðaráætlun FSR gerði ráð fyrir að verkið myndi kosta um 2,1 milljarð. Varnarvirkjunum verður ætlað að verja vestari hluta byggðar Seyðisfjarðar fyrir snjó- og krapaflóðum. Þar er meðal annars að finna miðbæ Seyðisfjarðar, Seyðisfjarðarkirkju og athafnasvæði ferjuhafnarinnar auk íbúahverfa.

Fornleifauppgreftinum mun ljúka næsta sumar en framkvæmdir við garðana hefjast í næsta mánuði og er ætlunin að þeir verði tilbúnir 2025.


Fréttalisti