2. nóvember 2023

Átján rýma hjúkrunarheimili í Stykkishólmi vígt

Heilbrigðisráðherra vígði í dag nýtt hjúkrunarheimili á gömlum merg í Stykkishólmi. Nafnið felur í sér vitnisburð um liðna tíð.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra vígði í dag nýtt hjúkrunarheimili í Stykkishólmi. Heimilið er í byggingu St. Franciscusspítala, sem byggður var af nunnum samnefndrar reglu árið 1936. Hjúkrunarheimilið er rekið af Heilbrigðisstofnun Vesturlands, HVE. Forstjóri HVE er Jóhanna Fjóla Jóhennesdóttir.

Verkefnið kom fyrst inn á borð FSRE árið 2012. Það var þó ekki fyrr en í maí 2018 sem Sturla Böðvarsson þáverandi bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar og Svandís Svavarsdóttir þáverandi heilbrigðisráðherra undirrituðu samning um byggingu heimilisins.

FSRE hófst síðar sama ár handa við að hanna 18 rýma hjúkrunarheimili í húsinu, sem nú er tilbúið. Íbúar hafa þegar flutt inn og ríkir almenn ánægja með aðstöðuna.

Við athöfnina í dag tilkynnti Hrefna Frímannsdóttir staðarstjóri HVE í Stykkishólmi að heimilið hefur hlotið nafnið Systraskjól. Nafnið vísar í að gamli spítalinn sem heimilið er í var byggður af systrum St. Franciscusreglunnar og rekinn af þeim í áratugi.

Hjálmar Örn Guðmarsson verkefnastjóri FSRE, Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Karl Pétur Jónsson upplýsingafulltrúi FSRE.


Fréttalisti