Samningur um húsnæði fyrir Skattinn og Fjársýsluna undirritaður hjá FSR
Samningur um leigu á 11.705 fermetra skrifstofuhúsnæði í Katrínartúni 6 var undirritaður hjá FSR miðvikudaginn 9. júní sl. Aðilar samningsins eru Ríkiseignir fyrir hönd fjármálaráðuneytis og Íþaka fasteignir.
Samningur um leigu á 11.705 fermetra skrifstofuhúsnæði í Katrínartúni 6 var undirritaður hjá FSR miðvikudaginn 9. júní sl. Aðilar samningsins eru Ríkiseignir fyrir hönd fjármálaráðuneytis og Íþaka fasteignir.
Um er að ræða húsnæði ætlað Skattinum og Fjársýslu ríkisins.
Húsnæðið sem um ræðir er nú í byggingu, en verður afhent til afnota í desember 2022. Samningurinn er til 30 ára með framlengingarákvæði.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur haft með höndun húsnæðisöflun fyrir Skattinn. Í kjölfar frumathugunar var ákveðið að auglýsa eftir húsnæði sem hýst gæti starfsemi stofnunarinnar og fleiri stofnana fjármálaráðuneytis. Að loknu ítarlegu valferli þar sem meðal annars var litið til gæða, verðs og staðsetningar, varð húsnæðið við Katrínartún fyrir valinu.
Snorri Olsen ríkisskattstjóri:
„Í dag erum við með starfsemi í þremur byggingum á höfuðborgarsvæðinu sem sameinast í þessu nýja, glæsilega húsnæði. Það mun gjörbreyta starfseminni hjá okkur að ná að sameina alla þessa starfsemi í nýju nútímanlegu og sveigjanlegu húsnæði sem auk þess leiðir til þess að við hjá Skattinum getum veitt betri þjónustu á einum stað ásamt því að hafa í för með sér hagræðinu í rekstrinum hjá okkur. Við erum mjög spennt fyrir því að flytja í þetta glæsilega húsnæði í lok næsta árs.“
Ingþór Karl Eiríksson, fjársýslustjóri FJS:
„Nýtt húsnæði er mikilvægt til að bregðast við breyttum kröfum og vinnulagi ásamt því að uppfylla markmið um hagkvæma og markvissa húsnæðisnýtingu, nútímalegt vinnuumhverfi og tækifæri til samnýtingar aðstöðu þvert á stofnanir. Það er trú mín að verkefnamiðað vinnuumhverfi í þessu glæsilega nýja húsnæði muni efla starfsemi Fjársýslunnar og bæta þjónustu með aukinni skilvirkni og styttri boðleiðum og fögnum við þessum áfanga og hlökkum til flutninga.“
Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri FSR:
„Leigusamningurinn er stór áfangi í þessu verkefni. Starfsfólk Skattsins og Fjársýslunnar getur hlakkað til þess að flytja í nýtt og vandað framtíðarhúsnæði. Húsnæðið býður upp á sveigjanlegar lausnir sem aðlaga má að þróun embættanna.“
