Ofanflóðavarnir Tálknafirði - varnargarður
- Verkkaupi: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
- Staða: Í áætlunargerð
- Verkefnisnúmer: 633 1757
- Tímaáætlun: Áætlað er að verkinu ljúki 2027
Um verkefnið
Verkefnið nær til ofanflóðavarna neðan Geitárhorna í þéttbýlinu við Tálknafjörð. Verkkaupi er Tálknafjarðarhreppur. Óvíst er hvenær framkvæmdir geta hafist. Á árinu 2017 var unnið að breytingum á aðal- og deiliskipulagi á vegum sveitarfélagsins. Kynningarskýrsla verður lögð fram til Skipulagsstofnunar til umsagnar þegar breytt skipulag hefur verið staðfest.
Frumathugun
Frumathugun vegna ofanflóðavarnanna neðan Geitárhorna í þéttbýlinu við Tálknafjörð var gerð 2014. Hún var unnin af Verkís hf. í samstarfi við Landmótun hf. Höfundar frumathugunarinnar voru Kristín Martha Hákonardóttir, verkefnastjóri Verkís hf. við gerð frumathugunar, auk Pálma Ragnars Pálmasonar og Snorra Gíslasonar hjá Verkís hf. Samstarfsaðili var Landmótun hf., þær Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir, landslagsarkitektar FÍLA.
Niðurstöður frumathugunar felast í tillögum að vörnum sem miða að því að uppfylla kröfur um öryggi samkvæmt reglugerð. Undir Geitárhornum standa þrjú íbúðarhús á hættusvæði C. Þrjú hús (fjórar íbúðir) standa á hættusvæði B og tvö á hættusvæði A. Áhætta á svæðinu er aðallega vegna snjóflóða en eitt krapaflóð er þekkt niður farveg Geitár. Talin er hætta á að tugir þúsunda rúmmetra snjóflóð geti fallið niður Geitárdal.
Lagt er til að 6–9,5 m háir leiðigarðar verði byggðir á aurkeilunni neðan Geitárhorna sem leiði snjó- og krapaflóð eftir henni miðri um auða lóð og út í sjó. Lagt er til að garðarnir verði grafnir niður um 2 m til þess að draga úr umfangi þeirra. Þannig munu þeir standa 4–7,5 m yfir óhreyfðu landi. Lagt er til að garðarnir verði byggðir úr jarðvegi með fláa 1:1,5 (lóðrétt:lárétt) flóðmegin en mildari fláa sem lagaðir eru að landslagi hlémegin. Auk uppbyggingar varnargarða felur tillagan í sér uppkaup tveggja húsa sem standa á hættusvæði C og fyrirhugaðir garðar verja ekki.
Heildarefnismagn í garðana er áætlað um 43.000 m3. Efnið fæst að stærstum hluta úr nærliggjandi námu. Efni úr skeringarásum sem ekki nýtist í garðfyllingar er áætlað allt að 35.000 m3. Heildarkostnaður við garðana er metinn um 170–240 m.kr. Við bætist kostnaður vegna uppkaupa á tveimur íbúðarhúsum sem ekki verða varin. Heildarverðmæti eigna innan núverandi hættusvæða B og C sem garðarnir verja er 36 m.kr. miðað við fasteignamat ársins 2014. Brunabótamat sömu eigna er hins vegar um 146 m.kr.
Í frumathuguninni er einnig sett fram gróf tillaga að lagfæringum á farvegi Hólsár til þess að draga úr hættu á að krapaflóð leiti upp úr farvegi árinnar og flæmist yfir fótboltavöll og iðnaðarsvæði á eyrinni austan ár.