Skrifstofuhúsnæði fyrir ríkisstofnanir - Markaðskönnun

Ríkiskaup f.h. Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna óskar eftir að taka á leigu 5.000-15.000 fermetra nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem áformað er að nýta undir ýmsar stofnanir ríkisins. Um markaðskönnun er að ræða og felur hún ekki í sér loforð um viðskipti.

 

Afmörkun verkefnis

Miðað er við að taka á leigu þegar byggt húsnæði sem er tilbúið til notkunar innan 6-12 mánaða frá undirritun leigusamnings, samkvæmt kröfum leigutaka.

Gert er ráð fyrir að leigutími verði 25 ár auk mögulegrar framlengingar. Ákvæði um forkaupsrétt verða einnig í væntanlegum samningi.

Gerð er krafa um staðsetningu miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, í nálægð við stofnbrautir, almenningssamgöngur og aðra skrifstofu- og þjónustustarfsemi.

Gott aðgengi skal vera fyrir hreyfihamlaða, hjólandi og gangandi og hæfilegur fjöldi bílastæða, miðað við staðsetningu, fyrir viðskiptavini og starfsfólk.

Óskað er eftir verðhugmyndum fyrir húsnæði í samræmi við kröfur sem settar eru fram í húslýsingu.

Gæði húsnæðis

Samkvæmt áherslum sem gefnar voru út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í desember 2020 er lögð áhersla á samnýtingu aðstöðu þvert á stofnanir sem og hagkvæma og markvissa húsnæðisnýtingu. Taka skal mið af eftirfarandi forsendum sem bjóðendur skulu kynna sér og má finna á vef Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna

§ Nútímalegt vinnuumhverfi, áherslur og viðmið í húsnæðismálum stofnana, útgefið af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í desember 2020.

§ Viðmið um vinnuumhverfi, leiðbeiningar um þróun húsnæðis og starfsaðstöðu ríkisaðila, útgefið af Framkvæmdasýslu ríkisins í desember 2020.

Þær stofnanir sem verða með starfsemi í húsinu verða af mismunandi stærðum og skal vera möguleiki að skipta húsnæðinu upp í misstór svæði (einingar) sem uppfylla kröfur um verkefnamiðað vinnumhverfi (VMV) samkvæmt viðmiðum Framkvæmdasýslunnar um vinnuumhverfi.

 

Lögð er áhersla á nútímalegt húsnæði sem býður upp á sveigjanleika og fjölbreytta aðstöðu þar sem góð innivist er tryggð og lögð er áhersla á eftirsóknarvert og samkeppnishæft vinnuumhverfi.

 

Ferlið

Fyrsta skrefið í þessu ferli er að óska eftir upplýsingum frá markaðnum um framboð á húsnæði sbr. kröfur sem fram koma í húslýsingu. Að könnun lokinni verður ákveðið hvort óskað verði eftir tilboðum í samræmi við hefðbundið leiguferli eða hvort samið verði við tiltekinn aðila á grundvelli þessarar könnunar. Leigutaki áskilur sér rétt til að semja við tiltekinn aðila á grundvelli könnunar þessarar ef hagstætt húsnæði kemur til greina á grundvelli könnunarinnar.

Þátttakendur skulu vera í skilum með greiðslu opinberra gjalda, lífeyrissjóðsiðgjalda eða annarra lögákveðinna gjalda ásamt því að uppfylla önnur almenn hæfisskilyrði til að vera í viðskiptasambandi við ríkisaðila.

Spurningar til áhugasamra aðila

Þess er óskað að þeir aðilar sem telja sig uppfylla ofangreindar kröfur veiti upplýsingar um eftirfarandi atriði:

 1. Nafn fyrirtækis eða samstarfsfyrirtækjanna og kennitala/–tölur?
 2. Hefur fyrirtækið eignir í leigu og rekstri?
 3. Óskað er eftir upplýsingum um áætlað leiguverð fyrir húsnæði að þessari stærð og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt reynslu viðkomandi.
 4. Staðsetning húsnæðis.
 5. Vill fyrirtækið/-in koma einhverjum upplýsingum eða athugasemdum á framfæri í tengslum við fyrirhugað leiguverkefni?

Gögn sem skulu fylgja tilboði þurfa m.a. að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

 • Afhendingatíma húsnæðis
 • Leiguverð á hvern fermetra (m2) og heildarleiguverð
 • Húsgjöld (ef það á við)
 • Upplýsingar um VSK greiðslur af leigu og húsgjöldum
 • Gildandi deiliskipulag svæðis þ.e. lóðar og aðlægra lóða
 • Tilvísun í gildandi aðalskipulag
 • Staðsetningu, stærð, aldur og byggingarefni húsnæðis
 • Heildarfjöldi fermetra ofanjarðar og heildarfjöldi fermetra neðanjarða.
 • Tillöguteikningar s.s grunnmynd og útlit í 1:200 og afstöðumynd í 1:500
 • Aðkomu að lóð og byggingu
 • Upplýsingar um hita- og loftræstikerfi
 • Upplýsingar um brunavarnir og öryggiskerfi

Áskilinn er réttur til að óska eftir því við leigusala að hann leggi fram úttektarskýrslu, frá óháðum aðila um almennt ástand húsnæðis, t.a.m. að það sé laust við raka og myglu.

Frekari upplýsingar um þær kröfur sem húsnæðið verður að uppfylla verða aðgengilegar í rafræna útboðskerfinu TendSign, á vefslóðinni https://tendsign.is/ föstudaginn, 17. september 2021.

Þess er óskað að svör berist Ríkiskaupum í gegnum vefinn Tendsign.is eigi síðar en föstudaginn, 1. október 2021 kl. 13:00.

Fyrirspurnir skulu einnig berast í gegnum Tendsign.is og rennur fyrirspurnarfrestur út föstudaginn, 24. september nk. 2021.

Útboðsnúmer:

Fyrirspurnarfrestur: 24.9.2021

Opnun tilboða: 15.10.2021