Forval arkitekta fyrir Húsnæði löggæslu- og viðbragðsaðila

Ríkiskaup f.h. Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna óska eftir þátttakendum í forvali á arkitektahönnun vegna byggingar húsnæðis fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu (HVH) að Kleppsgörðum 2.

Þeir aðilar sem verkefnið nær yfir eru:

 • Landhelgisgæslan (LHG)
 • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu (LRH)
 • Neyðarlínan (112)
 • Ríkislögreglustjóri (RLS)
 • Tollgæslan
 • Landsbjörg
 • Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) – skrifstofur

Forvalið er opið öllum hæfum þátttakendum. Að loknu forvali mun verkkaupi velja fimm fyrirtæki úr hópi hæfra þátttakenda til þátttöku í lokuðu samkeppnisútboði.

Þau sem boðið verður að taka þátt í lokaða samkeppnisútboðinu fara i gegnum þrjú þrep. Í fyrsta þrepi skila allir þátttakendur inn hönnunartillögum. Matsnefnd velur tvær tillögur til áframhaldandi þátttöku. Í þrepi tvö uppfæra þátttakendur tillögur sínar eftir notendasamráð og umsögn matsnefndar ásamt ábendingum frá verktaka-verkfræðingateymum um hvað betur mætti fara m.t.t. kostnaðar og framkvæmda. Að loknu þrepi tvö velur matsnefnd vinningstillögu á grundvelli 70% vægis tillögu og 30% vægis tilboðs í arkitektahönnunina. Í þrepi þrjú hefst forhönnunin. Að því loknu fer fram gerð aðaluppdrátta og svo verkhönnun.

Verkefnið:

Ákveðið hefur verið að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðið þarf að taka tillit til fjölmargra verkefna aðila og breytilegrar starfsemi þeirra. Niðurstaða þarfagreiningar verkefnisins gáfu til kynna að aðstöðuþörf væri rúmlega 26.000 m². Er þá miðað við verkefnamiðað vinnuumhverfi sem skapar sveigjanleika til komandi framtíðar. Í húsnæðinu verður sameiginleg björgunarmiðstöð, kennslusetur, matstofa, æfingsvæði og fleira.

Forsendur verkefnisins eru eftirfarandi:

 • Viðbragðs- og þjónustustig löggæslu og viðbragðsaðila við almenning verði eflt
 • Húsnæðis- og aðstöðumál aðilanna leyst með hagkvæmum hætti
 • Byggt verður yfir verkefni, ekki aðila
 • Samvinna, samþætting, samlegð og þekkingarmiðlun milli aðila eflist
 • Verkefnamiðað vinnuumhverfi (VMV)
 • Sveigjanlegt húsnæði og aðstaða

Útboð á síðari stigum verða lokuð öðrum en þeim sem tekið hafa þátt í forvalinu og uppfyllt allar kröfur þess.

Haldin verður kynning fyrir væntanlega þátttakendur á Teams 6. desember kl. 13:00.

Allar nánari upplýsingar um útboðið er að finna í útboðskerfi Ríkiskaupa, TendSign.is.

Leiðbeiningar varðandi útboðskerfið er að finna á heimasíðu Ríkiskaupa.

Auglýsing á vef Ríkiseigna.

Útboðsnúmer: 21730

Opnun tilboða: 17.1.2023