Sendiherrabústaður í Berlín

Skilafrestur byrjun árs 2003

Utanríkisráðuneytið efndi til hönnunarsamkeppni um sendiherra- bústaðinn. Hafði Framkvæmdasýsla ríkisins umsjón með samkeppninni. Gíslína Guðmundsdóttir hjá FSR var verkefnisstjóri. Í keppnislýsingu segir m.a. að bústaðurinn eigi að þjóna tvíþættu hlutverki, það er að vera hentug aðstaða utanríkisþjónustunnar fyrir margvísleg samskipti er varða hagsmuni Íslands auk þess að vera heimili fyrir sendiherra og fjölskyldu hans. Lögð var áhersla á að heildarlausn verkefnisins sameini skýra grunnhugmynd og gott innra fyrirkomulag og bjóði jafnframt upp á sveigjanleika í notkun. Krafa var um að heildarstærð hússins yrði innan settra marka og einnig áætlaður framkvæmdakostnaður.

Verkkaupi og AÍ skipuðu fulltrúa í dómnefnd sem voru Gunnar Snorri Gunnarsson, formaður, Elísabet Gunnarsdóttir, Ingimundur Sveinsson og Svavar Jónatansson. Ritari dómnefndar var Gíslína Guðmundsdóttir. Ráðgjafar dómnefndar voru Jón Egill Egilsson og Sverrir Haukur Gunnlaugsson.

Dómnefnd kynnti niðurstöður samkeppninnar, þann 7. mars 2003. 

Í samkeppnina bárust 45 tillögur sem er óvenju góð þátttaka. Fyrstu verðlaun hlutu Arkitektar Hjördís og Dennis ehf. Hjördís Sigurgísladóttir, arkitekt FAÍ og Dennis Davíð Jóhannesson, arkitekt FAÍ. Verkfræðileg ráðgjöf: Sigurður Ingi Ólafsson, tæknifræðingur.

Í dómnefndaráliti eru kostir verðlaunatillögunnar meðal annars nefndir eftirfarandi. Aðkeyrsla er greið og aðkomu að inngangsdyrum er vel fyrir komið. Fyrirkomulag er gott ytra sem innra svo og flæði innanhúss og út í garð. Öll tengsl milli rýma eru rökrétt. Kostur að hægt er að nýta fjölskyldurými við stærri móttökur.

Gerður var samningur við arkitektastofuna Arkitektar Hjördís og Dennis ehf. í ágúst 2003 um arkitektahönnun hússins á grundvelli niðurstöðu samkeppninnar. Samið var einnig við Gunnlaug Stefán Baldursson, arkitekt sem samstarfsarkitekt í Þýskalandi. Aðaluppdrættir voru afhentir byggingaryfirvöldum í Þýskalandi og hlutu þar afgreiðslu 25. mars 2004. Unnin voru útboðsgögn. Vegna eftirlits var leitað tilboða og var samið við eftirlitsráðgjafann Becker & Blume.