Opin samkeppni um skipulag á lóð Landspítala háskólasjúkrahúss

Hér er gert grein fyrir undirbúningi, forvali, samkeppni og gerð deiliskipulags vegna uppbyggingar Landspítala- háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut. Þessi vinna átti sér stað á árunum 2000-2007 og var í maí 2008 að mestu lokið utan formlegrar afgreiðslu. 
Nefnd um byggingu nýs háskólasjúkrahús óskaði eftir staðfestingu Reykjavíkurborgar á skipulagsforsendum sem fyrirhuguð hönnunarsamkeppni um Nýtt háskólasjúkrahús (NH) mun byggja á. Skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti 13. ágúst 2008 þessar forsendur og mun skipulagsstjóri Reykjavíkur koma að gerð endanlegs texta samkeppnislýsingar. 

Hönnunarsamkeppnin mun byggja á forsendum deiliskipulagstillögu sem kynnt var í skipulagsráði í apríl 2008 sem voru í aðalatriðum eftirfarandi: 

  • Lóðarafmörkun og stærð lóðar
  • Megingatnakerfi við lóð og innan lóðar
  • Aðkomuleiðir að lóð
  • Byggingarmagn og staðsetningar bygginga á lóð 
  • Hæð bygginga samkvæmt hæð bygginga í frumathugun 
  • Holtsgöng verði felld niður í Aðalskipulagi Reykjavíkur

Jafnframt hefur verið óskað eftir því við skipulagsyfirvöld Reykjavíkur að við skipulagningu nýrrar samgöngumiðstöðvar verið gert ráð fyrir þyrlupalli fyrir sjúkraflutninga og eru skipulagsyfirvöld nú með það mál til athugunar.

Verkkaupi var fram að samkeppni Landspítali- háskólasjúkrahús en síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) hafði umsjón með forvali og samkeppni fyrir hönd verkkaupa. 

Undirbúningur

Nefnd um framtíðarskipulag og uppbyggingu Landspítala- háskólasjúkrahúss (LSH) skilaði áliti til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í janúar 2002. Á grundvelli álitsins, sem kynnt var í ríkisstjórn, var tekin ákvörðun um staðsetningu nýs spítala. Meginatriði tillögum nefndarinnar voru meðal annars að starfsemi LSH yrði á einum stað. Svæði C á lóðinni við Hringbraut og reitur við Umferðarmiðstöð verði fyrir LSH, fyrirtæki og rannsóknarstofur á heilbrigðissviði. 

Nefnd um uppbyggingu LSH starfaði frá október 2002 og hana skipuðu Ragnheiður Haraldsdóttir formaður og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Magnús Pétursson, forstjóri LSH. Páll Skúlason, rektor HÍ, Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna LSH og Magnús Skúlason, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Margrét Sigurðardóttir, stjórnar-ráðsfulltrúi í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var ritari nefndarinnar og Óskar Valdimarsson, forstjóri FSR, ráðgjafi hennar. Í apríl 2004 var lögð fram skýrsla nefndarinnar um uppbyggingu LSH þar sem gerð er grein fyrir stöðu verkefna, tillögum um næstu skref, samningum um lóðir, tillögu um undirbúningsferlið, áherslum og forgangsröðun framkvæmda, tíma- og fjárhagsáætlun, tengslum við HÍ og samgöngum við LSH.Gert er gróft mat á húsrými, einingaverðum nýbygginga og við endurbætur bygginga, áfangaskiptingu og kostnaðarmati LSH á stigi forathugunar á verðlagi í febrúar 2004 svo og tímaáætlun. Samningur við Reykjavíkurborg um lóðir og fleira var lagður fram í ríkisstjórn 27. apríl 2004 og undirritaður þann sama dag.

Forval

Haustið 2004 hófst undirbúningur að samkeppni og var ákveðið að hún yrði lokuð, það er að samkeppni yrði haldin meðal þeirra aðila sem valdir yrðu í forvali og uppfylltu forvalsskilmála og kröfur um reynslu og þekkingu þeirra einstaklinga sem að verkefninu kæmu. Forvalið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu 19. janúar 2005 og á Íslandi 30. janúar 2005. Leitað var eftir 7 teymum sérfræðinga til að taka þátt í lokaðri samkeppni um gerð deiliskipulags og nánari útfærslu spítalastarfseminnar ásamt starfsemislýsingu bygginga og innri tengslum þeirra. Gerð var krafa um þekkingu á starfsemi og hönnun sjúkrahúsa og reynslu af sambærilegum verkefnum. 
Umsóknir um þátttöku bárust frá 18 teymum sérfræðinga. Þeim umsækjendum sem röðuðu sér í sjö efstu sætin var boðin þátttaka í samkeppninni. Þann 1. apríl 2005 voru birtar niðurstöður forvalsins.

Samkeppni

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði dómnefnd vegna samkeppninnar og var hún þannig skipuð: Ingibjörg Pálmadóttir formaður. Tilnefndir af Landspítala – háskólasjúkrahúsi Jóhannes M. Gunnarsson settur forstjóri LSH, svo lækningaforstjóri, Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri skrifstofu tækni og eigna, LSH. Tilnefndur af Háskóla Íslands Dr. Stefán B. Sigurðsson forseti Læknadeildar Háskóla Íslands. Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands Málfríður Klara Kristiansen arkitekt og Steinþór Kári Kárason arkitekt. Án tilnefningar Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri heilsugæslu-, sjúkrahúsa- og öldrunarmála, (höfuðborgarsvæðið) í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. 

Starfsmenn skrifstofu tækni og eigna á LSH og FSR voru dómnefndinni til aðstoðar í störfum hennar. Jafnframt voru arkitektarnir Ásdís Ingþórsdóttir og Gíslína Guðmundsdóttir, starfsmenn FSR, ritarar dómnefndar. Trúnaðarmenn vegna samkeppninnar voru þeir Pétur Pétursson, Ríkiskaupum og Haraldur Helgason, arkitekt FAÍ. 

Samkeppnislýsing var unnin af vinnuhópi LSH, HÍ og FSR. Í samkeppnislýsingu var gerð grein fyrir formi og tilhögun samkeppninnar og greint frá því tveggja umslaga kerfi sem á samkeppninni var, það er 80% af einkunn var fyrir tillögur en 20% fyrir tilboð í þóknun fyrir gerð deiliskipulags. Þá er og gefin nákvæm starfsemislýsing fyrir spítalann og háskólahluta hans einnig. Óskað var eftir tillögum um heildarskipulag á lóð LSH (deiliskipulag) og útfærslu um uppbyggingu spítalans (skipulag spítalans). 

Tillögum var skilað inn 8. september 2005 og hóf dómnefnd störf og kallaði til sín sérfræðinga til ráðgjafar, meðal annars sérfræðinga í lækningum, tækni, rekstri og hjúkrun á LSH, sérfræðinga frá White arkitektum í Svíþjóð og norska St. Olavs Hospital í Þrándheimi svo og íslenska sérfræðinga um hljóðvist, umferð, kostnað og fleira. Það var álit dómnefndar að í samkeppninni hafi mjög hæfir hópar sérfræðinga lagt sitt af mörkum við gerð skipulags fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús og skilað tillögum sem allar voru athyglisverðar og mjög vel unnar. Heildarniðurstaðan var að að hópurinn sem samanstendur af arkitektastofunni C.F. Möller, Arkitektur.is, SWECO Gröner, Verkfræðistofa Norðurlands, Schönherr Landscape unnu samkeppnina og var það formlega kynnt á opnum fundi sem fram fór 12. október 2005.

Deiliskipulag

Undirbúningur fyrir frumhönnun nýs spítala hófst fyrir alvöru 1. febrúar 2006 með opnum fundi framkvæmdanefndar vegna byggingar nýs Landspítala- háskólasjúkrahúss, með hátt á þriðja hundrað starfsmönnum spítalans og ráðgjöfum. Við sama tækifæri undirrituðu Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Klaus Hyttel, arkitekt og einn af eigendum danska fyrirtækisins C.F. Møller undir samning um gerð deiliskipulags. 

Ofangreind framkvæmdanefnd vegna byggingar nýs Landspítala-háskólasjúkrahúss var skipuð 18. nóvember 2005 af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Nefndina skipa: Alfreð Þorsteinsson fyrrverandi borgarfulltrúi, formaður, Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi, varaformaður., Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri og fyrrverandi alþingismaður, Magnús Pétursson forstjóri LSH, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Björn Ingi Sveinsson verkfræðingur. 

Ráðgjafar danska fyrirtækisins C.F. Møller unnu að gerð deiliskipulagstillögunnar í nánu samstarfi við íslensku arkitektastofuna Arkitektur.is sem einnig er hluti ráðgjafahópsins. Gert var ráð fyrir að skipulagi yrði skilað til skipulagsyfirvalda vorið 2006 en vegna endurskoðunar á þarfagreiningu og fleiru dróst á langinn að leggja fram skipulagið. Sérstök samstarfsnefnd framkvæmdanefndar nýs spítala og Reykjavíkurborgar sett á laggirnar til að halda utan um samvinnu þessara aðila Í nefndinni áttu sæti frá framkvæmdanefnd LSH Alfreð Þorsteinsson og Inga Jóna Þórðardóttir og frá Reykjavíkurborg Salvör Jónsdóttir og síðar Birgir H. Sigurðsson, sviðsstjórar skipulagssviðs og Helga Bragadóttir síðar skipulagsfulltrúi, Kristbjörg Stephensen, skrifstofustjóri stjórnsýslu- og starfsmannasviðs og Ólafur Bjarnason aðstoðarsviðsstjóri framkvæmdasviðs. Frá arkitektum átti sæti í nefndinni Guðmundur Gunnarsson hjá arkitektur.is. Fyrsti fundur þessa hóps var haldinn í apríl 2006. Haldinn var opinn kynningarfundur á niðurstöðum samkeppninnar og stöðu skipulagsins í Ráðhúsi Reykjavíkur 15. júní 2006. Við endurskoðun skipulagstillögunnar, sem fram fór sumarið 2006, var tekið tillit til athugasemda íbúa í nágrenni spítalans, sem og starfsmanna hans, meðal annars með því að færa HÍ hluta spítalans lengra til suðurs, þjappa heildarbyggingarmagni saman og gamla spítalanum gefin betri ásýnd. 

Unnið hefur verið áfram að framgangi skipulagsins gagnvart Reykjavíkurborg, meðal annars að því að áður fyrirhuguð umferðargögn undir Skólavörðuholti (Holtsgöng) verði felld úr skipulaginu. Fer þá að fækka þeim atriðum sem tafið geta að deiliskipulagstillaga liggi fyrir og að kynningar- og samþykktarferli geti hafist. Að því loknu fer fram formlegt samþykki deiliskipulags.