Endurbætur á raflögnum í byggingum á Keflavíkurflugvelli
- Verkkaupi: Stofnanir
- Verkefnisnúmer: 606 1030
- Verkefnastjóri: Sigurður Norðdahl
Um verkefnið
Endurbætur á raflögnum í byggingum á Keflavíkurflugvelli hafa verið boðnar út í áföngum.Forval vegna 6. áfanga (forval númer 6061030-F) var auglýst 12. janúar 2013. Um er að ræða forval vegna framkvæmda við endurbætur raflagna og einnig lagna- og loftræsikerfa í byggingu númer 130 innan öryggissvæðisins til að uppfylla gildandi staðla í stað bandarískra staðla. Áfanginn er talsvert stærri en fyrri áfangar sem voru boðnir út á árunum 2011–2012.
Í 1. og 4. áfanga var ÍAV þjónusta ehf. með hagstæðustu tilboðin og vann að framkvæmdum þeirra og Rafvík verktakar ehf. að 5. áfanga.
Niðurstaða forvalsins lá fyrir í febrúar 2013 og valdir voru fimm bjóðendur til þátttöku í lokuðu útboði. Hönnun byggingarinnar lauk í júní 2013 og hófst útboðsferlið í lok ágúst sama ár. Tilboð í byggingu 130 voru opnuð 15. október 2013. Fjögur gild tilboð bárust og var tilboði Bergraf ehf. tekið þann 4. nóvember 2013.
Hönnun áfanga annast Rafmiðstöðin sf., Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. (VJI), VSB Verkfræðistofa ehf. og Tækniþjónusta SÁ ehf. Umsjón með framkvæmdum hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri var Sigurður Norðdahl og Gunnar Sigurðsson hafði eftirlit.
Frumathugun
Verkefnið í heild nær einkum til breytinga á rafkerfum í byggingum innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar sem gerðar eru til að uppfylla íslenska og samevrópska staðla í stað bandarískra staðla sem áður giltu um raflagnir þessara bygginga.
Allt frá brottför varnarliðsins í byrjun september 2006 hefur verkefnið verið í athugun því ljóst var að uppfylla þyrfti staðla með því að skipta út rafkerfum í byggingum. Þann 1. janúar 2011 tók Landhelgisgæsla Íslands, sem nú er stofnun innanríkisráðuneytisins, yfir verkefni innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli sem áður voru í umsjón og rekstri Varnamálastofnunar. Hélt Landhelgisgæslan áfram undirbúningi og vann frummatsskýrslu vegna verkefnisins. Með hlutverk skipulags- og byggingarfulltrúa á öryggissvæðinu fer Mannvirkjastofnun.
Um er að ræða að breyta raflögnum í byggingum sem eru og verða áfram notaðar sem gistiheimili, geymsluhúsnæði, vöruhús og þjónustubyggingar og nú síðast breytingar á raflögnum og lagna- og loftræsikerfum í byggingu nr. 130 sem er stjórnstöð loftvarnakerfis NATO hér á landi. Einnig er stefnt að því að breyta raflögnum í flugskýli. Skipta þarf um heimtaugar inni í húsum að rafmagnstöflum, raflagnir úti við og raflagnir inni í byggingum.
Í umsögn FSR um frumathugun, sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið, kemur fram að framkvæmdirnar felast í að breyta kerfum vegna bygginganna þannig að þau uppfylli íslenska og samevrópska staðla og reglur um raflagnir og rafbúnað. Verða raflagnir í byggingunum með 50Hz (herz, fjöldi rafsveifla á sekúndu) og 220V (volt, rafspenna) í stað fyrri raflagna sem miðuðust við bandaríska staðla, það er 208/110V og 60Hz. Gert er ráð fyrir nýju háspennukerfi, heimtaugum að húsum og raflögnum inni í húsum. Heildarkostnaðaráætlun FSR á stigi frumathugunar vegna verkefnisins í heild, í júní 2011, eru 320 m.kr. án virðisaukaskatts, þar með talin ráðgjöf, verkframkvæmd, umsjón, eftirlit, gjöld og rekstur á framkvæmdatíma. Í júní 2013 var staðan endurmetin og kostnaðaráætlun uppfærð vegna fyrirhugaðra framkvæmda við byggingu nr. 130 og að loknum áföngum nr. 1 til 5, en gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði nú 557 m.kr. án virðisaukaskatts.
Landhelgisgæslan fjármagnar verkefnið og ráðstafar til þess fé úr sjóði NATO sem ætlaður er til loftvarnarkerfisins hér á landi.
Áætlunargerð
Áætlunargerð byggir á niðurstöðu frummatsskýrslu (ígildi frumathugunar) verkefnisins sem nær til breytinga á rafkerfum í byggingum innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar. Verkkaupi ákvað að bjóða framkvæmdirnar út í áföngum. Verkkaupi fékk til verksins hönnuði og fer hönnun fram á hverjum áfanga um sig. Þá eru lagðar fram teikningar, verklýsingar og magnskrár.
Rafmiðstöðin sf. annaðist hönnun fram að 6. áfanga að meginhluta en í hönnun 3. og 4. áfanga tók einnig Tækniþjónusta SÁ ehf. þátt og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. (VJI) að einhverju leyti vegna byggingar nr. 780. Hönnun 6. áfanga annast Rafmiðstöðin sf. og VJI, Lagnatækni ehf. og VSB Verkfræðistofa ehf. Þá unnu VJI og Lagnatækni kostnaðaráætlanir og verklýsingar á ensku.
Verkleg framkvæmd
Framkvæmdir við breytingu rafkerfa í byggingum innan öryggissvæðis á Keflavíkurflugvelli hafa verið unnar í áföngum. Verkkaupi er Landhelgisgæsla Íslands. Umsjón með framkvæmdunum hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, verkefnastjóri er Sigurður Norðdahl hjá FSR og eftirlit hefur Gunnar Sigurðsson hjá FSR. Í útboðsgögnum áfanganna segir meðal annars að byggingar þessar séu staðsettar skammt suður af gömlu flugstöðinni við sama veg að nafni Þjóðbraut. Verktaki þurfi að fara inn um vaktað hlið til þess að komast á verkstað og skulu starfsmenn verktaka fá aðgangsheimild inn á vinnusvæðið og fylgja öryggiskröfum Landhelgisgæslu Íslands og þeim reglum sem gilda á öryggis- og varnarsvæðum.
Í byrjun árs 2014 var vinna við 6. áfanga hafin og áföngum 1–5 lokið.
1. áfangi
1. áfangi (útboðsnúmer 15116) var auglýstur til útboðs 10. september 2011 og fólst í að breyta raflögnum í byggingum 615–618 og geymslum 608–609 og laga þær að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST 200:2006 – Raflagnir bygginga. Skipta skal um rafbúnað, innlagnarefni, tengla, rofa, lampa, setja upp og tengja nýjar töflur. Áfanganum lauk 22. febrúar 2012. Tilboð í 1. áfanga voru opnuð hjá Ríkiskaupum 27. september 2011. Kostnaðaráætlun 1. áfanga var 38.970.000 krónur (kr.). Tekið var tilboði ÍAV þjónustu ehf. þann 17. október 2011 að upphæð 21.494.165 kr. sem var 55,16% af kostnaðaráætlun.
2. áfangi
2. áfangi (útboðsnúmer 15125), sem var auglýstur til útboðs 24. september 2011, fólst í að breyta raflögnum í byggingum 627, 628, 629 og 630 og geymslum 610, 611 og 612, Keflavíkurflugvelli, bílageymslu og geymslum og laga þær að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST: 200:2006 – Raflagnir bygginga. Skipta skal um rafbúnað, innlagnarefni, tengla, rofa, lampa, setja upp og tengja nýjar töflur og breyta lömpum. Áfanganum lauk 22. febrúar 2012. Opnun tilboða í 2. áfanga var 11. október 2011. Kostnaðaráætlun 2. áfanga var 31.790.000 kr. Tekið var tilboði ÍAV þjónustu ehf. þann 28. október 2011 að upphæð 18.919.035 kr. sem var 59,51% af kostnaðaráætlun.
3. áfangi
3. áfangi (útboðsnúmer 15146) , sem var auglýstur til útboðs 5. nóvember 2011, fólst í að breyta raflögnum í byggingu 179 á Keflavíkurflugvelli, auk endurbóta á vatns- og loftræsilögnum og innanhússfrágangi í þvottahúsi. Laga skal raflaganir að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST: 200:2006 – Raflagnir bygginga. Skipta skal um rafbúnað, innlagnarefni, tengla, rofa, lampa, mótora og dælur og setja upp nýtt fullbúið brunaviðvörunarkerfi. Leggja skal raflögn og setja upp tengla fyrir tæki í þvottahúsi, setja upp og tengja nýjar töflur og breyta lömpum. Þá skal breyta vatns- og loftræsilögnum og innanhússfrágangi í þvottahúsi. Áfanganum lauk 7. mars 2012. Opnun tilboða í 3. áfanga var 25. nóvember 2011 klukkan 11.00. Kostnaðaráætlun 3. áfanga var 13.207.000 kr. Tekið var tilboði ÍAV þjónustu ehf. þann 12. desember 2011 að upphæð 11.094.005 kr. sem var 84% af kostnaðaráætlun.
4. áfangi
4. áfangi (útboðsnúmer 15183) , sem var auglýstur til útboðs 7. janúar 2012, fólst í að breyta raflögnum í byggingum á Keflavíkurflugvelli 44, 126–128 og 286 og lögnum í bygging 286 og laga þær að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST: 200:2006 – Raflagnir bygginga. Skipta skal um rafbúnað, innlagnarefni, tengla, rofa, lampa, setja upp og tengja nýjar töflur og breyta lömpum. Þá skal breyta vatnslögnum og búnaði fyrir núverandi loftræsisamstæður og setja upp nýtt stýrikerfi og stjórnbúnað fyrir núverandi loftræsikerfi. Byggingar eru geymslu- og skrifstofuhúsnæði á einni hæð og sérvarið varnarmannvirki á tveimur hæðum. Þær eru misstórar frá um 140 m² til 2.000 m² að stærð. Byggingar þessar eru skammt suður af byggingu númer 615 sem stendur við veginn Þjóðbraut. Áfanganum lauk 5. júní 2012. Opnun tilboða í 4. áfanga var 24. janúar 2012 klukkan 15.00. Kostnaðaráætlun 4. áfanga var 27.905.000 kr. Tekið var tilboði ÍAV þjónustu ehf. þann 10. febrúar 2012 að upphæð 19.803.939 krónur sem var 70,9% af kostnaðaráætlun.
5. áfangi
5. áfangi (útboðsnúmer 6061030-E5183), sem var auglýstur til útboðs 21. apríl 2012, fólst í að breyta raflögnum í byggingu nr. 131 innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar og laga að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST: 200:2006 – Raflagnir bygginga. Skipta skal um rafbúnað, innlagnarefni, tengla, rofa, lampa, mótora og dælur og tengja nýjar töflur og breyta lömpum. Núverandi loftræsikerfi, tölvu- og símakerfi og brunaviðvörunarkerfi verða endurbætt. Byggingin er sérhæfð skrifstofubygging um 920 m² að stærð á einni hæð og þakrými. Byggingin stendur við veginn Þjóðbraut. Áfanganum lauk 19. október 2012. Opnun tilboða í 5. áfanga var 8. maí 2012. Kostnaðaráætlun 5. áfanga var 14.530.000 krónur. Þann 29. maí 2012 var tilboði Rafvík-verktaka ehf. að upphæð 8.987.665 krónur tekið sem var 61,86% af kostnaðaráætlun. Til viðbótar var samið við Rafvík verktaka ehf. um breytingar í miðjurými byggingarinnar, eða svonefndum „CORE“ og lauk þeim í mars 2013.
6. áfangi
6. áfangi var í undirbúningi á árinu 2013 og var ákveðið að efna til forvals (forval númer 6061030-F) sem var auglýst laugardaginn 12. janúar 2013. Áfanginn felst í endurbótum á raflögnum og lagna- og loftræsikerfum í byggingu númer 130 innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar. Byggingin er stjórnstöð samþætts loftvarnakerfis NATO hér á landi og er um 2.800 m² á þremur hæðum. Í meginatriðum felst verkið í að laga rafkerfin að gildandi reglugerð um raforkuvirki og ÍST: 200:2006 Raflagnir bygginga. Gerðar verða einnig umtalsverðar breytingar á kæli- og loftræsikerfum byggingarinnar. Niðurstaða forvalsins lá fyrir í febrúar 2013 og valdir voru fimm bjóðendur til þátttöku í lokuðu útboði. Hönnun byggingarinnar lauk í júní 2013.
Fjögur gild tilboð bárust. Tilboð Bergraf ehf. að fjárhæð 336.025.987 krónur var lægst eða um 101,6% af kostnaðaráætlun. Tilboði Bergraf ehf. var tekið 4. nóvember 2013 enda metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðslýsingar.